143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er að bera í bakkafullan lækinn að óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra sé í salnum. Ég ætla að gera aðra tilraun til að leggja fyrir hann spurningu og svo aðra framsóknarmenn sem sitja hér í salnum ef þeir ganga ekki allir á dyr. Ég hyggst gera að umtalsefni ályktanir Framsóknarflokksins og bréfaskriftir þeirra til kjósenda sem ég sem jafnaðarmaður og aðildarumsóknarsinni get alveg skrifað upp á.

Fyrir kosningar 2009 sendi forusta Framsóknarflokksins í Reykjavík mjög merkilegt bréf til kjósenda sem var undirritað af formanni flokksins. Ég vil taka skýrt fram að á þeim tíma lá Framsóknarflokkurinn í Reykjavík mjög lágt í skoðanakönnunum og það leit jafnvel út fyrir að oddvitar í þessum Reykjavíkurkjördæmum mundu ekki ná kosningu. Þannig voru skoðanakannanir rétt fyrir kosningar.

Síðan er þetta bréf til „kæra kjósanda“ sent út og tekið á nokkrum þáttum en kaflinn um Evrópu er alveg sérstaklega góður. Með leyfi forseta stendur þar:

„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkmið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið.“ (SJS: Hver skrifar undir þetta?)

Virðulegi forseti. Þetta bréf er ekki haft undir heldur efst til að leggja áherslu á það og undirritað af formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, þarna lá Framsóknarflokkurinn mjög illa í skoðanakönnunum og má alveg leiða líkur að því að bæði formaður flokksins, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og formaður fjárlaganefndar, margrædd, Vigdís Hauksdóttir, hafi ef til vill náð kjöri eftir þessa kosningabaráttu.

Síðan skilur maður eiginlega ekki það sem ég ræddi hér í gær, samþykktir flokksþinga Framsóknarflokksins, bæði 2007 og áréttað 2009, um aðildarviðræður. Þess vegna hef ég ekki skilið þá breytingu sem nú er með framlagningu á þessari dæmalausu tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra leggur fram og hefur orðið hér tilefni til mikilla deilna og langra umræðna sem hvergi sér fyrir endann á, þ.e. um þessa dæmalausu tillögu að slíta viðræðunum.

Hvað hefur breyst hjá Framsóknarflokknum? Og má ég biðja þá framsóknarmenn í salnum, hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, hv. þm. Karl Garðarsson, sem þar að auki stóð í Kringlunni í kosningabaráttunni 2013 og hafði uppi fögur og góð orð um aðildarviðræður við Evrópusambandið við kjósendur sem tóku hann tali — hver eru þessi sinnaskipti? Hvað hefur gerst? Það er það sem okkur vantar enn að vita, hvers vegna þessi flýtir, hvers vegna sú dæmalausa tillaga sem þarna er sett fram. Hvers vegna var þetta unnið svona?

Ef til vill hefur skýrleiki og einhver skýring á því birst okkur í gær og í dag, umræðuefnið áðan um samningaviðræður um makrílinn. Ef til vill er það ekki skrýtið að framsóknarmenn treysti sér ekki í viðræður við alþjóðasamtök og aðila erlendis miðað við það sem gerðist í gær í makrílviðræðunum. Það hefur komið fram að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur haldið vel á málum í þeim viðræðum en ég efast um að utanríkisráðuneytið hafi gert það. Og það er grundvallaratriði í öllum samningum að standa ekki upp frá borði og skilja aðra samningsaðila eftir á fundi til að halda áfram. Þegar menn standa upp frá samningaborði, ég tala nú ekki um í fjögurra þjóða viðræðum eins og þarna var, verða menn að vera tryggir með að samningaviðræðunum sé sannarlega slitið. Það kann að vera að það sem gerðist í gær hvað varðar makrílinn fyrir Íslands hönd skýri dálítið þennan flumbrugang sem (Forseti hringir.) er núna við þessa dæmalausu tillögu (Forseti hringir.) þar sem á að slíta þessum viðræðum.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að kalla eftir svörum, vegna þess að ég hef ekki fengið að leggja (Forseti hringir.) spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) og trúi ekki öðru en að þeir framsóknarmenn sem eru í salnum komi í andsvör og útskýri (Forseti hringir.) fyrir okkur það sem sett var hérna fram.