143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að við viljum að þjóðin komi að málinu, að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og að það sé þjóðin sem ákveði framhald málsins. Það hefur mikið verið rætt hér að á ferðinni sé sérhagsmunagæsla og að núverandi ríkisstjórn sé að slá skjaldborg um sérhagsmunagæslu. Ég lít þannig á að menn séu þá að tala um sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar og að af þeim sökum vilji menn ekki halda viðræðunum áfram. Telur hv. þingmaður að slík hagsmunagæsla sé á ferðinni?

Það hefur líka verið talað eins og sérhagsmunagæsla sé eitthvert fyrirbæri á Íslandi sem ekki þekkist í Evrópu. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns í því og líka varðandi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins (Forseti hringir.) sem er að fara að taka sér til fyrirmyndar íslenska sjávarútvegsstefnu, sem ekki allir eru sammála um.