143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð svo djörf að óska eftir andsvari við hv. þingmann þó að ég sé ekki framsóknarmaður. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki móðgaður við mig fyrir þær sakir.

Mér þótti þessi nálgun frekar sérkennileg, að reyna að kría fram hvernig núverandi þingmenn Framsóknarflokksins útskýrðu kosningabækling frá árinu 2009. Þeir sem hér sátu í salnum voru allir fyrst í framboði fyrir síðustu kosningar eftir því sem mér skilst. Það væri eins og ef ég krefði hv. þm. Kristján Möller svara við spurningunni hvers vegna hann styddi ekki lengur útflutningsleiðina sem farið var fram með í kosningunum 1995 af forverum Samfylkingarinnar. Er það þannig að þingmaðurinn styðji ekki enn þá leið eða er það einfaldlega þannig að flokkar skipti ekki um skoðun, þeir skipti bara um kennitölu? Er það í lagi?

Þar sem hv. þingmanni er svona mikið í mun að aðrir flokkar standi við sína stefnu verð ég að knýja jafnframt svara úr ríkisstjórn 2009 þegar hv. þingmaður sat þar með Vinstri grænum: Hlýddi hann ráðherrum Vinstri grænna yfir kosningaplögg Vinstri grænna þar sem fram kom að Vinstri grænir væru á móti því að Ísland gengi í Evrópusambandið? Það kom vægast mjög flatt upp á kjósendur Vinstri grænna á þeim tíma að þeir skyldu síðan leiða þá baráttu að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Hélt þáverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, svona ræðu yfir ráðherrum og þingmönnum Vinstri grænna á þeim tíma til að hlýða þeim yfir sín eigin kosningaloforð?