143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat hér um, þó að ég hafi ekki lesið það upp orðrétt, hverju oddvitar og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lofuðu fyrir kosningar 2013. Það var alveg skýrt.

Hv. þingmaður talar um hvað fulltrúar á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sögðu við stjórnarmyndun þeirrar ágætu ríkisstjórnar sem starfaði eftir kosningarnar 2009. Ég hefði haft gaman af að taka þá bæklinga með mér ef ég hefði vitað þetta. Ef ég man rétt samþykkti landsfundur að hann væri tilbúinn að leggja aðildarsamning fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þessu deilumáli lyki. Ég tók eftir því áðan, þegar hv. þingmaður fór með þessi orð um stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Evrópumálum, að margir þingmenn hér andmæltu því sem hv. þingmaður sagði. Það er alveg nákvæmlega það sama og við þurftum að gera um þá dæmalausu greinargerð sem fylgdi tillögunni (Forseti hringir.) fyrst þegar hún var lögð fram en hæstv. utanríkisráðherra var gerður (Forseti hringir.) afturreka með hana.

Virðulegi forseti. Ég held að Heimssýnargögn séu ekki góð fylgigögn með frumvörpum.