143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri strax til að bjóða velkomna í salinn hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, en eftir ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur nokkuð verið kallað í þessari umræðu og það ekki að ósekju, kannski einmitt vegna þess að þeir hafa talað í aðdraganda kosninga og snúið svo við blaðinu núna með stuðningi við tillögu hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur verið viðstaddur umræðuna og þökk sé honum fyrir það.

Hér stefnum við í kvöldfund. Boðað hefur verið að við munum sitja fram eftir kvöldi og halda umræðu áfram. Ég óska eftir því að aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fari að fordæmi hæstv. innanríkisráðherra og sitji hér með okkur og ræði þessi mál í kvöld vegna þess að annað er algerlega óásættanlegt. Hér eru enn vendingar í málinu. Það hafa verið vendingar í málinu í dag sem við þurfum að fá úr skorið hvað ríkisstjórnarflokkarnir meina með. Það er að vísu einn og einn þingmaður sem (Forseti hringir.) talar alveg eins og ekkert hafi gerst síðan föstudaginn þegar tillagan kom fram, til dæmis hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. (Forseti hringir.) En það mætti segja mér að fleiri væru tilbúnir (Forseti hringir.) að sýna hér mildari hliðar og ég kalla eftir því.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða tímamörk.)