143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um það að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu hér lengur en búist hafði verið við fyrr í dag heldur snýst þetta um umræðuformið almennt. Hér verða ekki efnislegar umræður svo að teljandi sé áður en málið fer í nefnd. Það er alvarlegt mál. Hvers vegna ekki? Hvers vegna hefur ekki komið fram neinn rökstuðningur fyrir því hví slíta þurfi viðræðum frekar en að gera einfaldlega hlé? Það má ekki koma neitt til móts við neinn. Hvers vegna ekki? Af hverju er það svona mikið vandamál fyrir stjórnarliða að koma hingað og rökstyðja sitt mál? Hvers vegna á að lengja hér fund til að við getum haldið áfram að tala við engan eða svo gott sem? (Gripið fram í.)

Ég þakka reyndar hv. 4. þm. Suðurk., Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir að taka þátt í umræðunni sem hér hefur staðið í kvöld. Það er í alvöru mikils metið vegna þess hve sjaldgæft það er; ég tala nú ekki um hæstv. ráðherra. En það að slíta viðræðunum á móti því að gera hlé — hvers vegna má ekki ræða þetta? Hvers vegna getur enginn komið hingað og rökstutt þetta? Og ef þetta skiptir engu máli, eins og sumir hv. stjórnarliðar hafa sagt, hvers vegna má þá ekki koma til móts við þetta? Af hverju getum við ekki rætt þetta efnislega í þingsal eins og þingsköp gera ráð fyrir áður en málið fer í nefnd? Á hverju strandar það?