143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér er fullljóst að greiða á atkvæði um lengri fund í kvöld, svo mikið skil ég. Ég skil hins vegar ekki hvernig hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætla að vera fjarstaddir alla þessa umræðu. Einn hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur komið inn á þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hann sagði alveg klárlega, eða ég gat ekki skilið hann öðruvísi, að hann ætlaði ekki að svíkja loforð. Það þýðir þá að hann ætlar ekki að samþykkja þessa tillögu eins og hún er. Það hlýtur að fela í sér að þá eigi að breyta tillögunni. Mér finnst að við þingmenn eigum rétt á því að heyra það frá hæstv. ráðherrum sem enn eru ákveðnir, ef það eru einhverjir, í að ætla að svíkja loforðin, eða eru þeir hættir við? Ég vil taka fram að (Forseti hringir.) ég hef aldrei sagt, mér dettur það ekki í hug, að (Forseti hringir.) hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ætli að svíkja eitthvert loforð. Það er annað fólk (Forseti hringir.) sem ætlar að gera það og það er það fólk sem við viljum tala við.