143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þetta upphlaup því að það var nú þannig að á þriðjudaginn nálguðust þingflokksformenn Samfylkingar og Vinstri grænna okkur með það að komast hjá kvöldfundi, hvort hægt væri að koma umræðunni í góðan farveg, sem gerðist. Það var líka tilkynnt og þeim gert ljóst þá að ef ekki næðist að klára umræðuna á réttum tíma í dag mundi forseti boða til kvöldfundar og jafnvel til fundar á morgun líka ef forseti einsetti sér að koma þessu máli til nefndar. (Gripið fram í: … samkomulag …)

Hv. þm. Helgi Hjörvar hristir hausinn frammi í sal en hann sat þann fund með mér og forseta þegar þetta var sagt. Ég man ekki hvort hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var þar, ég ætla ekki að bera þetta neitt upp á hana. En við skulum bara reyna að klára málið hér, þá kemst það til nefndar. Ég er búinn að segja að ég vil að öll þessi mál, allar þessar tillögur fari saman til nefndar, (Gripið fram í: … eftir að ræða …) þær fái góða umfjöllun þar og þær verði teknar til efnislegrar umræðu, sendar út (Forseti hringir.) og menn flýti sér ekki í nefndinni. Ég er opinn fyrir öllum breytingum sem eru skynsamlegar í nefndinni.