143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er frekar ólánlegt að hér skuli upphefjast bullandi ágreiningur á nýjan leik um þingstörfin eftir þriggja daga málefnalegar umræður. Það er tæplega hægt að segja að lukkan sé með okkur, maður fer að velta fyrir sér hvort Alþingi vanti lukkutröll eins og íshokkílið og ýmsir aðrir hafa til að reyna að auka gæfu sína. [Hlátur í þingsal.]

Aðallega kem ég hingað til að leggja áherslu á það sem hefur komið fram í máli margra ræðumanna. Hér er stuttur ræðutími, tíu mínútur og fimm mínútur. Það eru lítil tækifæri til skoðanaskipta við hæstvirta ráðherra, í fyrsta lagi eru þeir bara að hunsa umræðuna og eru ekki við og í öðru lagi taka þeir ekki til máls þannig að við eigum þá kost á því að fara í andsvör við þá o.s.frv. Það væri hið eðlilega að þeir sem hafa verið margbeðnir að fara yfir og útskýra sína sjónarmið sýndu umræðunni þá virðingu að halda hér ræður þannig að þeir tækju það af sínum ræðutíma og sínum kvóta og við fengjum (Forseti hringir.) tækifæri til að eiga við þá orðaskipti í andsvörum. Þá væri einhver bragur á þessu, herra forseti.