143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Umræðan um þetta stóra og mikla mál sem birtist okkur í þingsályktunartillögu sem þingmenn geta rætt fyrst í tíu mínútur og svo í fimm mínútur hefur verið mjög efnisleg og góð síðustu þrjá daga. Ég hélt eitt augnablik hér síðdegis í dag í ræðu minni þegar ég sá að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru farnir að streyma í hús að þeir ætluðu að heiðra okkur með nærveru sinni — eða hitt þó heldur — og taka þátt í umræðu, nota sínar tíu mínútur og fimm mínútur til að útskýra sín mál og svara spurningum okkar eftir atvikum í andsvörum. Nei, þá var það ekki ætlunin hjá hæstv. ráðherrum heldur var það til að koma rétt fyrir sex og greiða atkvæði um að við hin skyldum vera á kvöldfundi eða jafnvel fram á nótt. Friðurinn var skyndilega rofinn.

Ég tel enn að formenn þingflokka, allir sem einn undir forustu forseta Alþingis, eigi að vinna að því að ná samkomulagi. Mér finnst menn vera að gefa hér eftir (Forseti hringir.) og okkur vantar bara frekari útskýringar á þeim orðum sem hæstv. utanríkisráðherra, ábyrgðarmaður þessa máls, (Forseti hringir.) er að segja við okkur í þinginu. (Forseti hringir.) Hvert á framhaldið að vera? Ef það kemur fram held ég að það liðki mjög fyrir þingstörfum, virðulegi forseti.

(Forseti (EKG): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)