143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er ekki í þeim hópi sem kippir sér upp við það þó að hér sé kvöldfundur af og til. Ég er ekki orðinn eins kvöldsvæfur og félagi Össur Skarphéðinsson, hv. þingmaður, sem barmaði sér undan því fyrr í orðaskiptum að það væri honum mikil áraun að standa í umræðum um þetta að kvöld- og næturlagi.

Ég er samt að hugsa um að greiða atkvæði gegn þessari tillögu forseta og þá fyrst og fremst vegna þess að ég sé ekki annað en að hér sé með þessu að spillast verulega andrúmsloftið eftir ágætar umræður, málefnalegar umræður í tvo, þrjá daga og sem í sjálfu sér eru langt komnar. Ég sé því ekki vandann sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum að ástunda ekki bara venjulegt fundarhald um þessa umræðu eins og aðrar.

Það sem hefur verið gallinn er fjarvera hæstv. ráðherra, en nú mæta þeir, þannig að þeir eru allir saman á landinu, þeir eru allir við heilsu og þeir eru meira að segja vakandi hérna á bekkjunum. Þess vegna fæ ég ekki skilið af hverju er svona erfitt að verða við þeirri einföldu ósk að hæstv. ráðherrar komi í umræðuna, haldi ræður, gefi okkur kost á orðaskiptum við sig. (Forseti hringir.) Eftir því hefur verið ítrekað óskað, og vegna orða hæstv. fjármálaráðherra áðan þá er það náttúrlega þannig (Forseti hringir.) að ef óskað er eftir forustumönnum ríkisstjórnar (Forseti hringir.) til umræðna á Alþingi um stór mál, (Forseti hringir.) þá mæta þeir, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Svoleiðis er það.