143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ef það væri svo að hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu aldrei sagt neitt um þjóðaratkvæðagreiðslu og Evrópusambandið þá gæti maður nú virt það þeim til vorkunnar að vera fjarstaddir margar þær leiftrandi snilldarræður sem á eftir að flytja hérna í kvöld, en það er bara ekki þannig. Það má skilja það á hæstv. fjármálaráðherra að þetta mál komi þeim eiginlega ekki neitt við og þeir eigi þess vegna að geta verið þar sem þeim dettur í hug.

Ég hafði jafnvel hugsað mér að styðja tillögu forseta um að halda hér kvöldfund en í ljósi þessa sjónarmiðs finnst mér það ekki koma til greina. Ég vil minna á og gera að mínum orðum orð hæstv. heilbrigðisráðherra hér fyrr í dag og bið ráðherra Sjálfstæðisflokksins um að hafa það í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki svikið nein kosningaloforð enn.