143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar þessi ræðubuna hófst ætlaði ég að bjóða alla hv. þingmenn velkomna í þingsal og hæstv. ráðherra með en síðan hófst ein ræða og við það hvarf hæstv. forsætisráðherra og ýmsir förunautar með, því miður. Fyrir alla hina ætla ég að hafa smáfréttastund.

Það er kominn hellingur af undirskriftum gegn þessari þingsályktunartillögu, 3.556 fleiri en kusu Framsókn í seinustu kosningum — þetta ættu reyndar ekki að vera fréttir — og 725 færri en kusu Sjálfstæðisflokk. Sennilega er fleira fólk mætt að mótmæla í dag en sem nemur þeim mun.

Það sem við erum hérna að rífast um er hvort það eigi að slíta þessum viðræðum við Evrópusambandið eða hvort það eigi að gera hlé. Enginn hefur stigið í pontu og gefið nokkur almennileg rök fyrir því hvers vegna þurfi að slíta. Það komu ein rök, þau að í einhverju viðtali fyrir löngu hafi verið sagt: Klukkan tifar. Síðan þá hafa borist formleg skilaboð frá Evrópusambandinu um að ekki þurfi að slíta þessu (Forseti hringir.) þannig að það eru engin rök. Það eina sem þarf til að klára þessa umræðu er að (Forseti hringir.) hv. stjórnarliðar komi hingað og rökræði þetta við okkur. Við værum löngu búin að þessu (Forseti hringir.) ef það hefði gerst.