143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[19:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að hvetja til þess að þeir sem greiða atkvæði með kvöld- og næturfundi mundu sitja hann og taka þátt í umræðum. Ég átti satt að segja von á því að formaður Sjálfstæðisflokksins mundi verja tíu mínútum til þess að ræða eina stærstu tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt í utanríkismálum um langt árabil. Mér finnst það óvenjulegur skortur á hugrekki að hvorki hann né aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins treysti sér til að ræða sína eigin tillögu.

Ég bið hæstv. forseta að fara yfir starfsskyldur ráðherra með þeim. Það er ekki hægt að tala til Alþingis með þeim hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins gerði, að geðþótti ráðherra ráði hvort þeir sæki þingfundi eða ekki. Man ég það rétt, virðulegur forseti, að lög kveði á um að þingmönnum sé skylt að sækja þingfundi nema nauðsyn banni? Eða stendur einhvers staðar að það sé geðþótti Bjarna Benediktssonar sem skuli ráða því hvort menn sæki fundi eða ekki? Það verður að skerpa á þessum skyldum og sjálfsagt að þeir séu við umræðuna hér í kvöld og í nótt um einhverja stærstu ákvörðun (Forseti hringir.) í málefnum Íslands á síðari árum.