143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:17]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það áðan í ræðu minni að ég teldi að kannski væri lægsti samnefnarinn sá að menn gæfu út sameiginlega yfirlýsingu um að þessu máli yrði ekki lokið án aðkomu þjóðarinnar. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að gefa þá yfirlýsingu hér. Ég held að það væri mjög í anda þess sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur látið hafa eftir sér og sagt við fjölmiðla, að menn vilji tryggja eða finna einhverja leið til þess að tryggja aðkomu þjóðarinnar að þessari ákvörðun.

Það er auðvitað búið að byggja inn í þetta ferli, ef beðið verður með þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar, svolítinn ómöguleika, svo að ég noti nú það hugtak, því að ef haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla á miðju kjörtímabili, segjum eftir tvö ár þegar eitt ár er eftir af yfirstandandi kjörtímabili, og þjóðin ákveður að halda viðræðum áfram, þá er ár í kosningar, mun það auðvitað blasa við að núverandi stjórnarflokkar eru búnir að lýsa því yfir að þeir geti ekki farið að vilja þjóðarinnar. Þess vegna mundi það hafa áhrif á útkomu þeirra kosninga. Ef stjórnarflokkarnir ákveða að bíða með atkvæðagreiðslu eða gera ekki neitt í málinu þá blasir líka við að harkalega verði tekist á um málið í aðdraganda næstu alþingiskosninga, það verði kannski ráðandi deilumál eða mál sem ræður atkvæði margra í þeim kosningum. Þetta er auðvitað nokkuð sem núverandi stjórnarflokkar verða að velta fyrir sér.

Ég held að best væri í þeirri stöðu sem nú er að halda áfram með málið. Mér finnst ólíklegt að svo verði. Ég hallast helst að því að menn geri hlé á viðræðum og lýsi því yfir. Það er sú tillaga sem hér hefur verið rædd töluvert og (Forseti hringir.) margir geta kannski sætt sig við og stutt.