143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er staðan þannig eins og hér var sagt að einn ráðherra hefur bæst í hópinn og á bekkinn og einhverjum bænum hefur verið svarað. En ég minnist þess að þegar við töluðum um skýrsluna á dögunum þá óskaði þingmaður nærveru ráðherra en þegar ekki var hægt að verða við því var fundi frestað. Ég spyr: Á ekki eitt yfir alla að ganga í þessu? Ef þingmenn óska eftir nærveru ráðherra sem þeir eiga rétt á er þá eðlilegt að einn þingmaður fái því framgengt á meðan aðrir fá það ekki? Hér hefur ítrekað verið óskað eftir, og það var sérstaklega tilkynnt í kvöld þegar ráðherrar sátu hér á bekk, að nærveru þeirra væri óskað þannig að það á ekki að koma þeim á óvart og það er ekki of skammur fyrirvari væntanlega.

Mig langar til að inna hæstv. forseta eftir því hvort möguleiki sé á að eitt gangi yfir alla þingmenn og gert verði hlé á fundi þar til viðvera ráðherra verði staðfest.