143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mér fannst hún skauta fram hjá því að svara því hve langan tíma það tæki fyrir okkur Íslendinga að taka upp þessa yndislegu evru sem er nú orðið eitthvað sem allir vilja eignast eins og eitthvert fótanuddtæki; að öllum líði rosalega vel ef þeir eru komnir með evru sem gjaldmiðil. En það er nú eins og það er.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann út í áhrif annars gjaldmiðils. Nú erum við í litlu hagkerfi sem rímar ekki alveg við hagkerfi Evrópu. Er hún ekkert hrædd um að ef við förum í svo stórt hagkerfi með annan gjaldmiðil að þá taki menn sveiflurnar í gjaldmiðlinum í atvinnuleysi. Í skýrslunni sem við vorum með til umræðu um daginn kom fram að rekja má tæp 40% af vexti í atvinnuleysi meðal aðildarríkja Evrópusambandsins árin 2009–2012 til Spánar. Spánn er auðvitað eitt ríkið sem er með þeim allra verst settu en samt er gífurlegt atvinnuleysi í öðrum löndum miðað við það sem við búum við.