143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer eftir því hversu dugleg við erum hér innan lands að ná þessum markmiðum. Ég fór yfir það áðan að stærsta hindrunin eða sú þyngsta, eins og staðan blasir við núna, væri ekki verðbólgan heldur aðallega skuldastaða þjóðarbúsins. Við þurfum að vinna á henni. Þegar við höfum náð tökum á henni erum við ekki bara komin í þá stöðu að geta farið að nota milljarða tugina sem við greiðum í vexti núna árlega í þarfari verkefni innan lands heldur erum við líka komin í þá stöðu að vera nær því að vera gjaldgeng fyrir evru.

Það sem mér finnst skipta máli í allri umræðunni um tímalengdina er að þegar við leggjum af stað, þegar við höfum náð samkomulagi við sambandið eða hin aðildarríkin um það með hvaða hætti við ætlum að koma inn í sambandið, þá eru markmiðin sem við setjum okkur með því að ætla að taka upp evru alþjóðlega þekkt peningastefna. Þó að það taki 10 ár, þó að það taki 15 ár eða hvaða tíma svo sem það tekur, fimm ár, þá erum við alltaf á braut sem er þekkt. Það hafa 28 önnur ríki gert þetta á undan okkur þannig að við erum að tala um alþjóðlega þekkta peningastefnu og viðmið sem menn þekkja.

Meðan við erum með krónuna erum við svolítið á leiðinni í óvissuferð. Alþjóðaumhverfið þekkir ekki hvernig krónan hegðar sér og getur það ekki. Við gerum það ekki heldur vegna þess að það er svo breytilegt. Menn treysta henni ekki. Það sjáum við á því að hún er verðlaus í dag. Það er almennt viðurkennt að ekki verður hægt að aflétta fullkomlega hér höftum. Þá er alltaf spurning hversu mikil höft við verðum með hverju sinni. Er það framtíðarsýn sem við viljum miðað við þá reynslu sem við höfum af krónunni hingað til? Ég er búin að svara því fyrir mína parta, (Forseti hringir.) mér finnst það ekki þess virði. Ég vil þess vegna klára þessa göngu til enda (Forseti hringir.) og sjá hvað við getum (Forseti hringir.) fengið út úr þessum viðræðum (Forseti hringir.) að þeim loknum.