143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Fyrir mína parta sé ég einmitt ekkert athugunarvert við það að þetta taki tíma. Mér finnst bara allt í lagi að stórir hlutir taki tíma. Mér finnst það reyndar næstum því betra en ef þetta tæki mjög skamman tíma vegna þess að þá mundi ég búast við því að hlutirnir væru ekki jafn vel útpældir, væru ekki jafn vel rannsakaðir. Almennt þegar kemur að mjög stórum kerfum, hvort sem það er náttúran, efnahagurinn eða hvað eina og vissulega ef það er peningakerfið, finnst mér fínt að taka hlutunum rólega. Hér hrópaði fram hv. 8. þm. Reykv. s., ef ég man rétt, að þetta tæki heil 15 ár, eins og það væri neikvætt. Mér finnst það bara fínt.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún telji kannski hættu á því vegna þess að hér er viðvarandi verðbólga sem hefur ekki alveg fullkomlega verið útskýrð — ég hef svolítið leitast eftir svörum hérna frá mér eldri hv. þingmönnum og hef ekki fengið nein skýr svör en ég held að þau séu ekki til — og ég hef smááhyggjur af því að með evru mundi hvað svo sem er að efnahag okkar einfaldlega lýsa sér í öðruvísi vandamálum. Oft er atvinnuleysi nefnt, en ég er ekki að tala um það, (Forseti hringir.) kannski frekar (Forseti hringir.) of lítið peningamagn í umferð (Forseti hringir.) eða eitthvað því um líkt. (Forseti hringir.) Hefur hv. þingmaður áhyggjur af (Forseti hringir.) einhverju slíku í sambandi við evruna?