143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður er með fáar og laufléttar spurningar á þessum mínútum sem við höfum hér til að eiga þetta samtal. Varðandi þessi 10, 15, 20 ár, eitthvað svoleiðis, er ég sammála hv. þingmanni um að það er ekki aðalmálið vegna þess að þegar við erum lögð af stað erum við komin með alþjóðlega þekkta peningastefnu. Í staðinn ætlar hv. þingmaður, sem kallaði fram í, að bjóða okkur upp á fullkomna óvissuferð.

Ef við horfum 15–20 ár aftur í tímann höfðum við fastgengisstefnu með árstíðabundnum gengisfellingum. Við vitum öll hvaða áhrif það hafði á innkaupakörfuna okkar. Ég var í innflutningi á barnafatnaði á þeim tíma og það var ekkert grín við þær aðstæður.

Virðulegi forseti. Síðan höfum við haft flotgengisstefnu, tilraun sem líklega engri annarri þjóð í heiminum hefði dottið í hug að fara í, þ.e. að vera með örmynt og fara inn á 500 millj. manna markað í gegnum EES-samninginn. Ég segi bara: (Forseti hringir.) Það er fullreynt að fara þessa leið — það er fullreynt. (Forseti hringir.) Ég tel meiri möguleika til vaxtar að (Forseti hringir.) þaulkanna hina leiðina.