143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þeir ráðherrar sem óskuðu eftir kvöldfundi eru einn af öðrum að tínast inn, hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson eru hér komin, en enn þá vantar hina. Það voru þau sem óskuðu eftir þessum fundi.

Ég hefði þess vegna talið að þau þyrftu að vera hér og mér finnst ofsalega leiðinlegt að vera alltaf að koma upp og biðja um það sama. Þetta hlýtur að vera augljóst. Það er mál í gangi sem þú hefur ekki tekið þátt í þrátt fyrir að það hafi ítrekað verið óskað eftir því. Þú kemur til þingsins, vekur væntingar hjá öðrum þingmönnum um það að þú sért loksins kominn til þess að taka þátt í umræðunni, en eina sem þú gerir er að biðja um kvöldfund og svo ferðu. Hvers lags framkoma er þetta eiginlega?

Ég verð að segja að ég held að forseti hæstv. verði að tala eitthvað við þessa ráðherra og ræða við þá um framkomu þeirra gagnvart þinginu. (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ég vil biðja hv. þingmann að gæta réttra ávarpsorða.)

Sagði ég ekki hæstv. forseti?

(Forseti (SilG): Þú.)

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að hæstv. forseti ræði þessa framkomu við ráðherrana svo að það verði ekki þannig að (Forseti hringir.) þeir lítilsvirði þingið með þessum hætti trekk í trekk.