143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:31]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Frú forseti. Ég kem hér upp í seinni ræðu minni um tillögu hæstv. utanríkisráðherra um að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni á dögunum þykir mér þetta arfaslök tillaga og ég rakti ástæðurnar fyrir því ágætlega þá og ætla ekki að endurtaka það. Þingsköpin hafa gefið mér kvöldfund sem ég fagna að mörgu leyti, þetta eru skemmtilegar umræður og góðar, en þau hafa ekki gefið mér þriggja tíma ræðu eins og ég óskaði mér í fyrri ræðu heldur bara nokkrar mínútur. Ég ætla því ekki að endurtaka dálitla spekúlasjón mína í fyrri ræðu um nútíðina, þ.e. annars vegar um stöðu Íslands eins og hún er í dag og stöðu og eðli Evrópusambandsins eins og það er í dag og er að mörgu leyti ágætlega rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Það er erfitt að hugsa um framtíðina á þessum tímapunkti, sérstaklega í ljósi tillögunnar sem er í raun og veru lögð fram til að loka á einn möguleika í framtíðinni, þ.e. loka á þann möguleika að Ísland haldi áfram viðræðum og klári samning við Evrópusambandið. Ekki hef ég heyrt í umræðunni síðustu daga margar aðrar framtíðarsýnir. Við höfum ekki heyrt af neinum ríkum frænda sem ætlar að koma og bjarga okkur eða framtíð okkar sem olíuveldis eða annað. Við höfum rætt dálítið um hvað þarf að gera. Það þarf að losa landið úr höftum. Það þarf að greiða niður skuldir, koma á jafnvægi í ríkisrekstri og svo framvegis, en við höfum lítið rætt í raun og veru um möguleikana á því hvernig við ætlum að gera það, enda alltaf erfitt að ræða um framtíðina.

Umræðan hefur verið góð. Haldnar hafa verið mjög margar góðar ræður og margar góðar samræður orðið í umræðunni. Oft hefur hugurinn leitað fram og til baka. Mér var hugsað til baka þegar ég hlustaði á svo ágæta ræðu pólitískrar systur minnar, hv. þm. Heiðu Kristínar Helgadóttur, í gær þar sem hún lýsti stöðunni eins og hún blasti við henni út frá sjónarhorni unga fólksins. Hún spurði sjálfa sig hvort hennar sem ungrar manneskju væri óskað í framtíðinni næstu 70 ár hér á landi eða ekki.

Ég er örlítið eldri en hún og þau rifjuðust upp árin þegar ég var ungur og var í menntaskóla. Þá var að mörgu leyti dálítið svipað ástand og núna. Þá var kennaraverkfall í vændum, þau komu í röðum meðan ég var í framhaldsskóla, og við bjuggum við gjaldeyrishöft. Þeir sem voru nógu heppnir til þess að geta keypt sér bíla keyptu sovéskar Lödur vegna þess að Sovétríkin voru land sem keyptu af okkur síld og var til í að skipta á bílum, það var enginn gjaldeyrir til þess að versla.

Þessi nostalgía setur mig í svo mikið samband við daginn í dag, en munurinn er að við búum í allt öðrum heimi í dag en við gerðum þá. Íslendingar hafa upplifað annað líf. 1985 var má segja seinni parturinn af síðasta gjaldeyrishaftatímabili Íslandssögunnar sem spannaði 70 ár, þannig að menn voru orðnir ágætlega vanir þessari stöðu. Í dag erum við á fimmta ári í gjaldeyrishöftum og erum eiginlega rétt að byrja að venjast þessu og eigum ekki alveg að venjast þessu.

Heimurinn hefur líka breyst. Hann hefur minnkað eins og oft er talað um. Fréttir af Íslandi berast ekki með haustskipum í gegnum Kaupmannahöfn heldur með leifturhraða internetsins. Það er fólk út um allan heim sem þýðir úr íslensku og jafnvel tölvuforrit sem gera það án aðkomu mannshugarins. Það sem einu sinni kallaði á fulla tösku af seðlum með skipi til Íslands til þess að skipta erlendum gjaldeyri í krónur ef menn ætluðu í gjaldeyrisbrask og var meiri háttar mál fyrir fólk, gerist bara með einum takka í dag. Það gerir að verkum að fljótandi króna, smár gjaldmiðill, er í besta falli afskaplega viðkvæmt fyrirbæri. Þannig að mér finnst dálítið sorglegt að vera nostalgískur þegar kemur að því hvernig ég upplifi framtíðina. En þar stend ég í dag.