143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við þá tillögu sem hér er til umræðu er að hún er ótæk. Það felst ekkert hagsmunamat í henni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman lagt upp úr hagsmunamati í þessum málum, það var beinlínis ekki farið fram á það við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands af ríkisstjórninni að fram færi hagsmunamat þannig að hún er ekki boðlegur grundvöllur ákvörðunar í þessu máli.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er ekki hægt að finna samstöðuleið með því að taka þessa órökstuddu hótun sem felst í þessari tillögu út af borðinu og við setjumst yfir það að finna farveg fyrir það hvernig við getum reynt að auka sáttina í samfélaginu um þetta mál, um leiðina áfram, halda valkostum opnum eins og atvinnulífið kallar eftir og allir aðilar vinnumarkaðarins og feta okkur leiðina áfram í friði og sátt? Þess vegna er ég alveg til í að ræða við hæstv. ráðherra áfram um hugmyndina um hvernig og hvenær nákvæmlega þjóðin komi að málum í framhaldinu. Mér finnst hann mæla margt af viti þar. En er ekki fyrsta skrefið að taka þessa órökstuddu hótun (Forseti hringir.) af borðinu til þess að við komumst eitthvað áfram í að skapa sátt um þetta mál?