143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni, og ég meina það, mér finnst það mjög jákvætt. Í öðru lagi vil ég minna hæstv. ráðherra á að ég var ekki hér á seinasta kjörtímabili, ég var ekki í seinustu ríkisstjórn og ber ekki ábyrgð á nokkurn sköpuðum hlut sem þar fór fram. Í þriðja lagi vil ég segja hæstv. ráðherra að ég var mjög hlynntur þeirri breytingartillögu sem hann lagði fram og greidd voru atkvæði um 16. júlí 2009 og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja hana fram.

Ég vildi óska þess að hún hefði verið samþykkt á sínum tíma.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra eins. Það eru ein rök sem ég hef heyrt fyrir því að slíta viðræðunum frekar en að gera hlé. Rökin eru þau að í viðtali hafi komið fram að klukkan tifaði. Nú hefur komið fram eftir formlegum leiðum að við getum alveg eins gert hlé fyrir Evrópusambandinu. Hvers vegna getum við ekki gert hlé á þessum viðræðum frekar en að slíta?