143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræddu fréttaviðtali koma fram ákveðin fyrirheit hjá hæstv. ráðherra þar sem hann segir að hann vilji að stjórnarflokkarnir fari yfir spurninguna um hvort til greina komi að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um slitin. Ég spyr hvort stjórnarflokkarnir hafi farið yfir það saman af því að það skiptir máli varðandi þá stefnu sem lögð verður til grundvallar í nefndinni.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann segir að við séum enn í þeim sporum og við vorum 21. febrúar, og það er svolítið sama tilfinning og ég hef, því miður, þó að liðnir séu tíu dagar eða hartnær hálfur mánuður: Telur hann að sáttatillaga Vinstri grænna geti, rétt eins og ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og stjórnarflokkanna hafa nefnt í andsvörum o.s.frv., verið grundvöllur einhvers konar niðurstöðu eða einhvers konar leiðar út úr þessu öngstræti?