143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það snertir, ég teldi hreinlegast og í bestu samræmi við stöðuna í þinginu og í ríkisstjórninni eftir síðustu kosningar að aðildarumsóknin yrði dregin til baka. Er það góð sáttaniðurstaða að setja málið í formlegt viðræðuhlé? Ég skal ekkert útiloka það fyrir fram, mér finnst ekki rétt að gera það vegna þess að ég er nú að meina það sem ég hef ítrekað sagt hér í kvöld, að mér finnist að allar þessar hugmyndir eigi að skoðast í nefnd.

Sá galli er á þeirri leið að eftir því sem árin líða úreldist allt það sem þegar hefur verið gert. Öll sú vinna súrnar sem þegar hefur átt sér stað. Þegar upp er staðið hefur það í sjálfu sér enga sérstaka þýðingu að hafa verið í viðræðuhléi í átta, tíu, tólf, sextán, tuttugu ár. Það hefur ekki aðra þýðingu en þá að menn þurfa að hefja allt ferlið upp á nýtt. Það er það sem er að fara að gerast.