143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur talað mikið um að hann leiti fyrirmynda að ómöguleika sínum hjá síðustu ríkisstjórn. Hann vísar til þess að þær hafi til dæmis birst í því að um áramótin 2011/2012 fóru ráðherrar úr þeirri ríkisstjórn og vill hæstv. ráðherra rekja það til ómöguleikans sem hann hefur talað um áður.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann segir að verið sé að oftúlka orð hans í aðdraganda kosninga: Hvernig á þá að skilja eftirfarandi setningu á bls. 5 í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2013, með leyfi forseta:

„… þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“

Það er ekki hægt að oftúlka þetta eða afbaka eða nokkurn skapaðan hlut, þetta er skýrt. Sjálfstæðisflokkurinn fór inn í kosningar með þetta loforð. Þá vissi hann um ómöguleikann, hann vissi um allt það sem hæstv. ráðherra hefur notað sem átyllur og tylliástæður fyrir því að koma fram með slitatillöguna. (Forseti hringir.) Miðað við þetta er því ekkert að marka þá röksemdafærslu.