143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra vill ekki svara spurningunum að þessu leyti. Þá ætla ég að fá að draga fram ákveðna hluti, koma okkur út úr þessum sal og leyfa öðrum mönnum að tala.

Í fréttum eftir að tillagan var lögð fram kemur fram að ákvörðun um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu gæti skaðað hagsmuni íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri, segir Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs. Svana Helen Björnsdóttir sem var formaður Samtaka iðnaðarins sagði: Með þeirri ákvörðun að slíta viðræðunum fer ríkisstjórnin gegn stórum hópi iðnfyrirtækja. Formaður Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir þá ákvörðun stjórnvalda að ætla að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu, með því sé búið að loka einum möguleika sem liggi fyrir í peningamálum og aðrar áætlanir liggi ekki fyrir.

Forstjórar tveggja stórra alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, Marels og CCP, gagnrýna þá ákvörðun að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Félag atvinnurekenda mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðum við ESB.

Virðulegi forseti. Hvaða snilld í tillögu hæstv. ríkisstjórnar sér þetta fólk, (Forseti hringir.) forsvarsmenn þessara samtaka, ekki?