143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að láta þess getið hér að mér þykir gaman að því þegar Samfylkingin sveiflast á milli þess að gera mikið úr því þegar Sjálfstæðisflokkurinn á ekki samleið með atvinnulífinu yfir í það að segja Sjálfstæðisflokkinn sérhagsmunagæsluflokk þegar hann á samleið með atvinnulífinu. (Gripið fram í.) Það sem þessir forstöðumenn, fyrirsvarsmenn (Gripið fram í.) í atvinnulífinu, sjá ekki er í fyrsta lagi það að það er ekkert vandamál að tefla að nýju fram aðildarumsókn sé skýr vilji til þess á þingi og hjá þjóðinni á síðari stigum. Það mun ekkert sérstakt gerast í millitíðinni. Því verður bara tekið fagnandi hjá Evrópusambandinu.

Í öðru lagi er allt of mikið úr því gert að verið sé að kasta frá okkur valkostum vegna þess að við höfum nóg með þá stöðu sem við erum með í dag og við eigum að vinna úr henni. Það er vel hægt og það gengur reyndar í augnablikinu bara ágætlega með atvinnuleysið á niðurleið, lága verðbólgu, ágætishagvöxt eins og menn hafa bent á í þinginu í öllum flokkum og fjárfesting er að taka við sér. Það er margt jákvætt fram undan sem við skulum ekki gera lítið úr. (Gripið fram í.) Á sama tíma verð ég að segja: Það er allt í lagi þótt einhverjir í atvinnulífinu (Forseti hringir.) telji að hagsmunum okkar sé betur borgið innan Evrópusambandsins, það er bara þeirra skoðun. Ég deili bara ekki þeirri skoðun.