143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Miðað við þann flýti sem var á að leggja þetta mál fram er dæmalaust hversu erfitt er að fá hæstv. ráðherra úr ríkisstjórninni til að tala fyrir málinu eða útskýra af hverju þau styðja það í ljósi orða þeirra. Ég er komin hér, frú forseti, til þess að kalla enn og aftur eftir hæstv. ráðherrum, ekki síst Sjálfstæðisflokksins. Hér var áðan varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ég sé að hún er ekki komin á mælendaskrá. Svo við vitnum til orða hennar sagði hún, með leyfi forseta:

„Fyrst og síðast snýst þetta um að Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum sinnar þjóðar ekki vera best borgið innan Evrópusambandsins. Við erum hins vegar þeirra skoðunar að vilji þjóðin það á einhverjum tímapunkti þá ber okkur að fara í þjóðaratkvæði og niðurstaðan af því, við munum virða hana.“ (Forseti hringir.) Fram kemur að hún muni fara fram á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Það er algjörlega óeðlilegt (Forseti hringir.) að hægt sé að ljúka þessari umræðu án þess (Forseti hringir.) að fólk komi hér og standi fyrir máli sínu, frú forseti.