143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú ber svo við að allir ráðherrar eru farnir úr salnum aftur. Þetta eru svona skreppitúrar sem menn eiga hingað inn í þingsal til okkar hinna.

Ég verð að nefna það hér að við erum ekki að tala um að menn hafi í aðdraganda kosninga sagt eitthvað og einhver orð „fallið í hita leiksins“. Menn voru mjög staðfastir í því að segja það sama. Allir þessir ráðherrar sem vitnað hefur verið til sögðu það sama. Hvers vegna sögðu þeir það sama? Það er vegna þess að þetta var beinlínis í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu hvorki meira né minna. Annaðhvort stunduðu menn vísvitandi stórfelldar blekkingar í aðdraganda kosninga, eða að hér er verið að grípa til mjög grunnra og mjög lélegra eftiráskýringa, vegna þess að það hefur enginn (Forseti hringir.) skynsamleg skýring, engin sem hald er í komið fram um það hvers vegna þessi stefnubreyting er orðin. Því ítreka ég það að þessir (Forseti hringir.) ráðherrar komi hingað í salinn og eigi við okkur samtal um þetta og skýri þetta út fyrir okkur.