143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega fagna því að hæstv. innanríkisráðherra er gengin í salinn vegna þess að við höfum verið að kalla eftir ræðum af hálfu forustumanna Sjálfstæðisflokksins.

Mig langar að nota þetta tækifæri og segja þingheimi frá því og forseta að í vikunni var fundur um þjóðaratkvæðagreiðslur og aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum. Selt var inn og fullt var út úr dyrum. Þar voru prófessorar í siðfræði, stjórnmálafræði og úr fjölmiðlafræði að ræða forsendur ákvarðana. Lykilstefið var vandinn á Íslandi við það að menn væru alltaf að hugsa um form; þjóðaratkvæðagreiðslu eða að klára umræðu í þinginu, en enginn hafði áhyggjur af því hvað væri sagt í umræðum í þinginu.

Fyrir liggur að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sögðu annað um örlög aðildarumsóknar fyrir kosningar en þessi tillaga kveður á um. Þingræðið krefst þess og lýðræðisleg umræða í landinu krefst þess að þeir komi og (Forseti hringir.) útskýri sinnaskipti sín héðan úr ræðustól Alþingis og við fáum tækifæri til að spyrja þá út úr um afstöðu sína.