143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég kem nú í seinni ræðu mína í þessu mikla máli sem líklegast er eitt stærsta mál sem við fjöllum um á þessu þingi, stórt mál í utanríkismálum þjóðarinnar, þegar ætlunin er að loka þeim dyrum sem þó eru enn í hálfa gátt, þ.e. að við getum samið við Evrópusambandið um aðild að því og borið þann samning undir þjóðina til samþykktar eða synjunar eins og lagt var upp með í júlí 2009.

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur loksins eftir marga daga og margar ræður kvatt sér hljóðs hér til að skýra frá afstöðu sinni til þessa máls. Því miður er hún ekki alveg skýr í mínum huga og vantar þar herslumuninn upp á að skilja hvað hann á við, ekki síst í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki séð ástæðu til þess að koma í kjölfar starfsbróður síns í ríkisstjórninni og staðfesta að í utanríkismálanefnd eigi að vinna að því hvernig þjóðin geti komið að þeirri ákvörðun hvort haldið verði áfram með aðildarviðræður eða þeim slitið.

Það er gífurlega mikið atriði að við fáum það á hreint hver afstaða ríkisstjórnarinnar er til þessa máls. Ég tel að við eigum það inni hjá ríkisstjórninni að hún segi okkur það áður en málið fer í nefnd. Tillögunni hefur verið breytt; hún er allt önnur en sú sem liggur hér frammi, sem var gerræðisleg.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði að honum þætti eðlilegast að málið héldi bara áfram eins og tillagan gerir ráð fyrir. Hann hlustaði á hinn bóginn á hin miklu mótmæli sem orðið hafa út af því sem hann segir að komi honum á óvart, ekki síst segir hann vegna þess hvernig úrslit kosninganna voru. Hann hefur alla vega ekki hlustað á ræðuna sem ég hélt í fyrradag eða á hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur sem talaði hér og fleiri sem hafa vakið athygli á því að þó að ríkisstjórnin sé með 60% þingmanna kaus bara 51% þjóðarinnar þá flokka sem mynduðu ríkisstjórn. Þess vegna er ekkert einkennilegt eða skrýtið við það þegar stjórnarflokkarnir báðir, sérstaklega þó annar, ætla að ganga á bak skýrra kosningaloforða að mikil mótmæli verði og slíkri hegðun sé andmælt.

Það er náttúrlega mjög bagalegt, virðulegi forseti, að látið hafi verið líða svona langt á umræðuna án þess að þetta sjónarmið formanns Sjálfstæðisflokksins kæmi fram. Reyndar kom sama sjónarmið fram, öðruvísi orðað, í morgun hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, öðrum varaformanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann lagði áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði engin loforð svikið, enn. Það var ekki annað á honum að heyra en að það stæði ekki til. Það stæði sem sagt ekki til að slíta viðræðum við Evrópusambandið.

Þetta þurfum við að fá staðfest úr ræðustól á Alþingi frá þeim ágætu mönnum sem fara með stjórn landsins og hafa einhvern (Forseti hringir.) veginn látið plata sig út í að leggja hér fram gerræðistillögu um að slíta aðildarviðræðunum.