143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta virki ekki alveg þannig að við færum fyrst vald þangað og færum það svo aftur heim. Þessi regla var mjög umtöluð einhvern tímann í kringum aldamótin 2000 og þar á undan og kom til vegna þess að það var gagnrýni innan Evrópusambandsins. Það er svo með öll ríki sem eru í Evrópusambandinu að þegar verið er þróa það og breyta því og gera alls konar hluti hefur fólk þar misjafnar skoðanir og þjóðir hafa misjafnar skoðanir á hinum ólíkustu málum. Þá er nálægðarreglan fundin út og hún er sú að ekki eigi að taka miðstýrða ákvörðun í Brussel, það eigi ekki að taka miðstýrða ákvörðun þar um hluti eins og til dæmis byggðamál, sem er betur komið að taka heima, í löndunum, í aðildarríkjunum. Þetta samstarf byggir annars vegar á sameiginlegu og yfirþjóðlegu miðstýrðu valdi og hins vegar á sjálfstæði þjóðanna. Þótt það séu settar reglur eins og samkeppnisreglur eða reglur um styrki til byggðamála og slíkt, og alltaf eigi að reyna að gera það á sem mestum jafnræðisgrundvelli, þá eiga þjóðirnar líka að fá að ákveða fyrir sig hvernig þær til dæmis eyða þeim styrkjum sem þær fá og þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er orðin svo syfjuð (Forseti hringir.) að ég mér finnst að það eigi (Forseti hringir.) að fresta þessum fundi. Ég (Forseti hringir.) hugsa að það sé ekki svo fyrir mér einni komið, (Forseti hringir.) sannast að segja.