143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hann flytur yfirleitt skemmtilegar ræður. Ég held að við getum verið sammála um ansi margt. Maður veltir því fyrir sér, í ljósi þess hvernig umræðan hefur verið og það sem ríkisstjórnin hefur leyft sér að framkvæma, að auðvitað breytast pólitískar stefnur á milli kosninga og eru kannski lítilsigldar miðað við það mál sem við fjöllum hér um; mál sem ekki á að takast á um í einhverri pissukeppni á hverjum degi.

Þingmaðurinn talaði mikið um lýðræði, þar held ég að við séum sammála. Það er það sem við í Vinstri grænum höfum verið að leggja áherslu á. Sáttatillaga okkar miðar að því að ganga út frá þessum lýðræðisvinkli, þ.e. að þjóðin fái eitthvað um málið að segja. Það var áhugavert að heyra þingmanninn tala um að rifrildi breyttist í rökræður. Ég held að það sé einmitt af hinu góða að málið hafi fengið að þroskast í umræðunni.

Hv. þingmaður spurði hér í andsvari út í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hefði átt að fara fram við upphaf málsins. Mjög skiptar skoðanir voru um það og meira að segja, af því hér höfum við rætt svolítið um afstöðu Heimssýnar, voru efasemdarraddir í þeim hópi um að fara í slíka atkvæðagreiðslu. Fólk óttaðist já-ið, þeir sem voru á móti aðild. Það sama fólk hefur líka áhyggjur af því að þráhyggja ríkisstjórnarinnar, að halda þessari tillögu til streitu óbreyttri, geti snúist upp í andhverfu sína.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu dregið tillögu sína til baka á sínum tíma ef málið hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og fengið (Forseti hringir.) það brautargengi sem það líklega hefði fengið á (Forseti hringir.) sínum tíma.