143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið ef hún hefði átt sér stað á sínum tíma, umræðan varð aldrei nógu þroskuð af því að sú atkvæðagreiðsla fór ekki fram. Sömuleiðis veit ég ekki hvernig fyrrverandi ríkisstjórn hefði farið með niðurstöðuna, en ég býst fastlega við því, miðað við hvernig haldið var á öðrum málum, að farið hefði verið eftir vilja þjóðarinnar. Ég efast um að lagt hefði verið í að sækja um ef þjóðin hefði afdráttarlaust sagt nei. Ég þori ekki að fullyrða það samt, ég var ekki í ríkisstjórn og ber enga ábyrgð á gjörðum nokkurrar ríkisstjórnar nema með atkvæði mínu sem borgari. En ég veit að ef þjóðaratkvæðagreiðsla hefði verið haldin og svarið hefði verið já, hefði umboðið verið skýrt. Þá hefðu ekki þurft að vera átök um þann þátt málsins. Ég held að það hefði þá líka verið óhugsandi — kannski ekki óhugsandi því að ríkisstjórnir virðast stundum gera það sem þeim sýnist, sama hvað tautar og raular — eða erfiðara fyrir þá hæstv. ríkisstjórn sem nú situr að kalla umsóknina til baka. Svo mikið veit ég.

Eitt af því mikilvægasta sem hafa þarf í huga þegar kemur að lýðræðinu, það sama og þegar kemur að einstaklingsfrelsi, tjáningarfrelsi og öðrum grundvallargildum vestrænnar menningar, er það að við þurfum að gjöra svo vel og lifa með því að aðrir séu ósammála okkur. Við þurfum að gjöra svo vel að lifa með því að einhver annar sé með öðruvísi kynhneigð en við kannski viljum. Það er hluti af því að búa í frjálsu samfélagi. Og hluti af því að búa við lýðræði er það að við þurfum að gjöra svo vel og lifa með því að þjóðin sé okkur ósammála. Ef þjóðin vill fara í ESB þá eigum við að standa faglega að því að hægt sé að gera það. Ef þjóðin vill ekki fara í ESB eigum við ekki að fara í ESB.

Mér finnst sá þáttur málsins engu flóknari en það. (Forseti hringir.) Ég hef ekki heyrt neinn segja neitt sem flækir það neitt mikið meira.