143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Ég get verið sammála honum um margt.

Mig langar samt að segja að ríkisstjórnin sá til dæmis ekki annmarka á því að draga náttúruverndarlögin til baka þrátt fyrir að þingheimur hefði samþykkt þau með yfirgnæfandi meiri hluta og þó að almenn sátt væri í landinu um þau — þó einhverjir hagsmunahópar hafi haft aðra skoðun. Ég tel því alveg fordæmi fyrir því að ríkisstjórnin hefði getað dregið umsóknina til baka þrátt fyrir jákvætt svar; ef það hefði orðið niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði hún verið haldin.

Mig langar að spyrja þingmanninn, vegna þess að í skýrslunni finnst mér vanta umfjöllun um félagslega þáttinn, út í unga fólkið. (Forseti hringir.) Í Evrópulöndunum hefur ungt fólk verið að flytja aftur inn á heimili foreldra sinna, meðal annars (Forseti hringir.) vegna atvinnuleysis. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður unga fólkinu (Forseti hringir.) betur borgið með því að hafa (Forseti hringir.) beinan aðgang (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu?