143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svolítið velt fyrir mér hvers vegna þurfi að slíta viðræðum í staðinn fyrir að gera bara hlé á þeim og leyfa komandi kosningum að ákvarða hvort haldið verði áfram eða ekki.

Ég held að þetta sé einhvers konar löngun til að kála þessu máli eða komast eins nálægt því að kála því og mögulegt er þrátt fyrir að menn segi stundum eitthvað annað, en svo líka sé ég þetta líka sem almennt mynstur hjá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn er talsvert fyrir það að snúa við blaðinu bara til þess að breyta. Gott dæmi um það eru náttúruverndarlögin sem hv. þingmaður nefndi áðan, það virðist vera einhvers konar synd í augum hæstv. ríkisstjórnar að leyfa einhverju að gerast sem fyrri ríkisstjórn ber ábyrgð á.

Ég veit ekki hvort það er eitthvert séríslenskt fyrirbæri eða bara alveg sérstaklega sterk tilhneiging hjá þessari tilteknu hæstv. ríkisstjórn. En þetta eru (Forseti hringir.) mistök sem ég sé víðar en í Evrópusambandinu. Ég átta mig satt best að segja ekki fyllilega á því enn þá hvað liggur þarna að baki ef ekki einfaldlega bara hroki.