143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður velti því fyrir sér af hverju þessi asi væri á ríkisstjórninni og af hverju hún vildi slíta viðræðunum í staðinn fyrir einfaldlega að leyfa þeim að liggja og, eins og hann orðaði það, láta síðan komandi kynslóðir síðan um að taka ákvörðunina. Er það valkostur í dag eftir kosningabaráttuna? Er það valkostur eftir yfirlýsingarnar sem gefnar voru fyrir kosningarnar, en líka eftir kosningarnar?

Reiði almennings í dag stafar af tvennu; annars vegar af þeirri staðreynd að með tillögunni, ef hún nær fram að ganga, er ríkisstjórnin að klippa á mikilvægan valkost inn í framtíðina. Það hefur skapað angur og reiði hjá mörgum. Hitt er ekki síður mikilvægt að gefin voru loforð, þau voru mjög skýr. Þau voru ekki bara gefin af formanni Sjálfstæðisflokksins heldur öllum núverandi hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Þau voru þar að auki gefin af hæstv. forsætisráðherra. Forsætisráðherra sagði oft fyrir kosningar og eftir kosningar að það skipti hann engu máli hvort þjóðaratkvæðagreiðsla yrði fyrr eða seinna. Í þeim orðum liggur að sjálfsögðu yfirlýsing um að hann er ekki andsnúinn þjóðaratkvæðagreiðslu. Það held ég að skipti mjög miklu máli.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Er nokkur valkostur í stöðunni annar en sá að það sé algjörlega skýrt þegar við stöndum upp frá þessu máli að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð viðræðnanna?

Síðan langar mig líka til þess að spyrja hv. þingmann út í hans lýðræðislegu nálgun á málinu. Hv. þingmaður sagði að það hefði verið skýrara umboð og betra ef í upphafi vegferðarinnar hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort fara ætti í viðræðurnar. En uppfyllir það ekki skilyrði lýðræðisins að heita því og standa við það að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um lokaniðurstöðurnar? Er þar með ekki (Forseti hringir.) lágmarksskilyrðum lýðræðisins í reynd fullnægt og hugsanlega hámarksskilyrðum (Forseti hringir.) líka?