143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nóg er nóttin, sagði draugurinn og ekki stendur á þátttöku okkar í stjórnarandstöðunni hér í þessari umræðu. Það hefur hins vegar borið til tíðinda að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur á lokametrum þessarar umræðu lýst furðulegum hugmyndum um lýðræðið, að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um slit á viðræðunum, að þjóðin eigi að velja á milli tveggja valkosta sem hún vill ekki — að hafa ekki viðræður eða slíta viðræðum, að halda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins er ekki valkostur í boði af því formaður Sjálfstæðisflokksins er svo hissa á vilja þjóðarinnar.

Þetta kallar auðvitað á það hvort Framsóknarflokkurinn, samstarfsflokkur hans, deili þessum furðulegu lýðræðishugmyndum, að hæstv. forsætisráðherra komi hingað til umræðunnar og geri grein fyrir því hvort þær hugmyndir sem hann hefur básúnað á síðustu árum um ást sína á þjóðaratkvæðagreiðslum séu sama eðlis og hjá formanni (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins. Vill hann að þjóðin fái bara að greiða atkvæði um tvo vonda valkosti? Eða (Forseti hringir.) vill Framsóknarflokkurinn að þjóðin fái að greiða atkvæði (Forseti hringir.) um það sem hún raunverulega vill, (Forseti hringir.) framhald viðræðnanna?