143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg þessa tregðu hjá ráðherrum og forustumönnum ríkisstjórnarinnar að koma hingað og ræða við okkur. Hingað kom hæstv. fjármálaráðherra og gerði eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan — hann opnaði á það að ræða einhverja útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þriðja útfærslan eða tillagan sem hefur verið lögð í púkkið, nema hún kom ekki formlega frá honum. Svo hafa þingmenn og ráðherrar lýst skoðunum sínum í fjölmiðlum, utan þessa salar, þar sem þeir hafa verið jákvæðir gagnvart því að skoða hinar og þessar leiðir í málinu. Hvað er því til fyrirstöðu að menn komi bara hingað og ræði við okkur um það með hvaða hætti við förum með þetta mál í nefnd? Erum við í nefndinni að fara að ræða hvort það eigi að vera þjóðaratkvæðagreiðsla eða erum við að fara að senda nefndinni veganesti um (Forseti hringir.) að finna út úr því hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að vera? (Forseti hringir.) Á þessu er grundvallarmunur. Ég bið, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, um að fá upplýsingar (Forseti hringir.) um það hvort ekki sé öruggt (Forseti hringir.) að ráðherrarnir komi hingað á eftir.