143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Umræða um þessa tillögu veldur því að maður er farinn að líta á hana sem einhvers konar tilbera úr þjóðsögunum. Þetta er einhvers konar hörmungaróskapnaður, fæddur af foreldrum sem vilja ekki kannast við hann og enginn tekur ábyrgð á honum. Utanríkisráðherrann sem lagði þetta fram er búinn að endurskrifa greinargerðina. Svo kemur hann og segist alveg geta sætt sig við breytingar á málinu. Fjármálaráðherrann kom hingað áðan og tók í sama streng en þó með öðrum hætti og stjórnarþingmenn eru hlaupandi eins og hauslausar hænur út um allar koppagrundir í að afneita tilberanum.

Maður spyr sig þá: Er ekki eðlilegast að taka ósköpin af dagskrá? Er um eitthvað annað að ræða? Er ekki eðlilegra að biðja ríkisstjórnina bara um að fara nú til baka, velta málinu fyrir sér af einhverju viti og koma með alvöruhugmynd um úrlausn þessa máls, sem getur verið til þess fallin að byggja einhverja sátt á?