143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég lít svo á að staða málsins sé gjörbreytt eftir yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins. Það liggur fyrir að hann er ekki með fullan stuðning við tillöguna eins og hún var upphaflega lögð fram. Við þær aðstæður er eðlilegt, áður en umræðunni er fram haldið, að fram komi hvort þetta er skoðun ríkisstjórnarinnar.

Það er eðlilegt að ég spyrji hæstv. utanríkisráðherra til þess að greiða fyrir þessari umræðu: Hefur þessi hugmynd hæstv. fjármálaráðherra verið rædd í ríkisstjórninni?

Sömuleiðis er fullkomlega eðlilegt að menn vilji vita hvort þetta útspil afmarkast einungis við formann Sjálfstæðisflokksins eða hvort það hefur verið rætt í ráðherrahópi Sjálfstæðisflokksins. Því spyr ég, herra forseti: Er varaformaður Sjálfstæðisflokksins staddur í húsi? Mér finnst rétt að það komi fram hvort þetta er tillaga forustu Sjálfstæðisflokksins eða bara einleikur formannsins.