143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur komið ágætlega fram að eðlilegast væri að ríkisstjórnin fengi tækifæri til að endurskoða þessa tillögu sína. Það er fundur á þriðjudaginn, geri ég ráð fyrir. Þá mundi passa ágætlega að halda hér áfram umræðunni eftir hádegi eins og margoft hefur verið beðið um. Hér hafa komið fram athugasemdir, eins og hefur verið vakin athygli á, frá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um að hann telji að tryggja eigi með einhverjum hætti aðkomu þjóðarinnar þó að það sé mjög óljóst hvernig. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sömuleiðis opnað á einhverjar breytingar en það er mjög óljóst hvernig og því miður hefur hæstv. utanríkisráðherra ekki séð ástæðu til að koma í umræðuna.

Við eigum eftir þriðja og fjórða liðinn á dagskránni áður en þetta mál getur farið í utanríkismálanefnd. Síðan er fimmti liður mjög spennandi, þ.e. gjaldskrárlækkanir sem tengjast kjarasamningum. Við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur um greiðsluþátttöku kom til dæmis svar í kvöld frá heilbrigðisráðherra þar sem kom í ljós hvaða (Forseti hringir.) álögur er verið að leggja á sjúklinga á sama tíma og menn eru að skreyta sig með tillögum hér um (Forseti hringir.) lækkanir. Við þurfum gjarnan að komast í þá umræðu svo að (Forseti hringir.) menn fari að átta sig á því að það er ekki verið að létta álögum af fólki (Forseti hringir.) þó að annað sé gefið í skyn.