143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þegar ég flyt aðra ræðu mína í þessari umræðu verð ég að segja að ég er orðin enn sannfærðari en ég var í upphafi um að ekki sé rétt að slíta aðildarviðræðum á þessu stigi málsins. Þessi umræða hefur verið ágæt og komið hefur verið inn á fjölmörg mál. Ég hef ákveðið að blanda mér þannig í umræðurnar að draga fram út af hverju ég tel að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB; ég hef kallað eftir viðbrögðum hjá þeim hv. þingmönnum sem hafa verið að ræða þessi mál á þeim nótum að hagsmunum okkar væri betur borgið innan ESB. Við eigum samleið í því að vilja að málið fari til þjóðarinnar, að það sé réttlátt krafa og það sé lýðræðislegt og eðlilegt.

Ég hlustaði vel á ræðu hæstv. fjármálaráðherra hér áðan og mér fannst hann fara í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut. Mér fannst hann forðast það sem borið var upp á hann, þ.e. hvað hann hefði sagt á ýmsum stigum þessa máls og fyrir kosningar. Mér finnst það mjög einkennilegt. Hann talaði meðal annars um að til álita kæmi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem þetta þegar vilji þings og þjóðar færi saman. Þá spyr maður sig: Hvernig getur hann lagt það þannig upp? Hvernig er hægt að mæla hvort vilji þings og þjóðar fari saman án þess að spyrja þjóðina? Mér fannst hann ekki rökstyðja það á nokkurn hátt að þetta mál væri ekki fullburða til að fara til þjóðarinnar, að hún fengi að tjá afstöðu sína í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði líka um að það hefði komið honum á óvart hversu sterk viðbrögð hefðu verið við tillögu um að slíta aðildarviðræðum. Ég met það þannig að hann hafi ekki það innsæi sem hann ætti að hafa, sem maður hefði talið að hann hefði sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Maður hefði talið að hann hefði átt að hafa tilfinningu fyrir því hvernig svona mál færi í þjóðina. Við vitum öll að það sem er bannað er mjög spennandi. Þeim mun meiri áherslu sem menn leggja á að halda málinu frá þjóðinni fær þjóðin það æ sterkar á tilfinninguna að hún sé að missa af einhverju, að í Evrópusambandið sé eitthvað að sækja sem ráðandi valdhafar ætli að halda frá henni, að þeir ætli ekki að leyfa þjóðinni að koma að málum þó að þeir hafi gefið allt annað í skyn fyrir kosningar, bæði í töluðum orðum og á prenti.

Ég sem þingkona Vinstri grænna á ekki erfitt með að tala fyrir þessu máli á þessu stigi. Mér heyrist sumir úti í þjóðfélaginu vera að tala á þeim nótum að það sé óskaplegt að heyra að Vinstri græn séu að tala fyrir því að ekki eigi að slíta aðildarviðræðum við ESB á þessu stigi. En ég óttast ekkert þessa umræðu og ég óttast ekki að þjóðin kunni ekki fótum sínum forráð og meti þann sannleika sem hugsanlega yrði lagður fyrir hana. Mér var kennt að treysta á mitt eigið innsæi og ég treysti þjóðinni vel. Mér finnst það vera glapræði ef ráðamenn þjóðarinnar eru svo lokaðir inni í eigin hugarheimi að þeir telji að þeir séu upphaf og endir alls.