143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar undanfarið, og undanfarin ár, um afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið og afstöðu til áframhaldandi viðræðna og fleiri þátta sem snúa að Evrópusambandinu. Eftir hrunið var mjög lítill áhugi á að ganga í Evrópusambandið eða fara í aðildarviðræður. Þetta hefur snúist við, sérstaklega á undanförnum vikum. Það sýnir að fólk er auðvitað hugsandi yfir þessum málum. Ég tel að margir hugsi á svipaðan veg og ég. Við vorum ekki hrifin af að fara í þessa vegferð, en fyrst hún var farin viljum við bara klára dæmið.

Ég held að tillaga okkar Vinstri grænna í málinu núna opni á ýmsa möguleika að við þingmenn náum saman, hvar í flokki sem við stöndum, um að mæta þjóðarvilja í málinu. Ég gat ekki annað heyrt en að hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson og hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, gæfu því undir fótinn að þeir vildu ræða möguleika á að útfæra tillögu eitthvað á þeim nótum sem okkar tillaga er, sem ég tel vera skynsemistillögu og eigi að (Forseti hringir.) ræða í framhaldinu í nefnd.