143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það megi alveg ræða, að hafa tvær spurningar ef þjóðin verður spurð um framhald þessa máls. Mér líst bara ágætlega á það að þær spurningar sem hv. þingmaður kynnti, og þjóðin hefur verið að skrifa undir og skora á okkur þingmenn að hlusta á, verði leiðarljós inn í þá vinnu sem fer fram í framhaldinu þegar málið fer til nefndar. Ég veit ekki hvað ráðamenn óttast við slíka tillögu. Eru menn komnir á þann stað að þeir séu hræddir við sína eigin þjóð, þ.e. að kjósendur fái að segja sína skoðun?

Það er enn færi fyrir hæstv. ráðherra og hv. þingmenn að bjarga andlitinu ef maður getur sagt svo og lýsa því skýrar yfir að þeir vilji hlusta á óskir þjóðarinnar um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Mér finnst þessar spurningar vera mjög gott innlegg inn í hugmyndir að spurningum.

Ég er ekki hlynnt því að þjóðin verði spurð: Vilt þú ganga í ESB? Mér finnst það ekki vera boðlegt. Því að miðað við hvernig umræðan hefur verið að þróast mundi alveg örugglega meiri hluti þjóðarinnar stökkva á þann vagn, bara til að hafa einhverja möguleika á að halda áfram viðræðum. Þótt þetta sama fólk væri ekki áfjáð í að ganga í ESB, þá teldi það að það væri eini möguleikinn til að fá að sjá (Forseti hringir.) einhverja niðurstöðu.