143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og ég hef bent á hér í kvöld urðu kaflaskipti í umræðunni þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því í reynd yfir að hann styddi ekki lengur þá þingsályktunartillögu sem er til umræðu. Hann vill hafa annan hátt á. Ég taldi að þá væri rétt að hingað kæmi til umræðunnar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og fram kæmi hvort sú hugmynd sem hæstv. fjármálaráðherra tefldi hér fram fyrr í kvöld nyti stuðnings þeirra líka. Þess vegna tel ég það lofsvert af hæstv. menntamálaráðherra að hafa hlýtt kallinu og komið hingað til þess væntanlega að greiða fyrir umræðunni með því að gefa upp hvort hann sé sömu skoðunar. Til þess að greiða fyrir þingstörfum, frú forseti, lýsi ég því yfir þar sem ég er mjög framarlega á mælendaskrá að ég er reiðubúinn að láta hæstv. menntamálaráðherra eftir sæti mitt til að hann geti notið þeirra fríðinda að greina þinginu frá afstöðu sinni til hugmyndar formanns Sjálfstæðisflokksins.