143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel meðferðina á þessu máli þinginu ekki til sóma. Ég skil ekki hvað það er í málinu sem:

a. Þolir ekki dagsins ljós.

b. Er þannig að menn eru ekki tilbúnir að koma hingað og standa með eigin tillögum.

Virðulegi forseti. Svona á ekki að fara með stórmál í gegnum þingið. Þau eiga að þola dagsins ljós. Menn sem flytja þau eiga að fylgja þeim alla leið og standa með þeim og svara spurningum þingmanna. Þá nefni ég ekki síst að þetta er ekki hvaða mál sem er, þetta er mál sem hefur kallað á viðbrögð 50.000 manna sem hafa ákveðið að setja nafn sitt á undirskriftalista og skora á Alþingi að draga tillöguna til baka. Það eru mótmæli hér fyrir utan dag eftir dag.

Við höfum talað mikið fyrir nýjum stjórnmálum og fyrir því að það sé hlustað. Hér er ekki verið að hlusta á nokkurn mann, virðulegi forseti. Hér ræður valdhrokinn, ekkert annað.