143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég var ráðherra á ofanverðri síðustu öld, þá nokkrum árum yngri en ég er núna, átti ung börn. Einu sinni var hringt heim til mín upp í Breiðholt um tvöleytið að nóttu og mér var gert viðvart um að þingmaður í efrideild Alþingis óskaði eftir nærveru minni. Ég dreif mig í fötin og keyrði niður eftir eins og þá þótti sjálfsagður hlutur. Ég mætti að vísu þingmanninum í dyrunum á leiðinni út þegar ég kom, en þannig var þetta í þá daga. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst það með ólíkindum að hæstv. ráðherrar, sérstaklega forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, skuli ekki vera hér undir lok þessarar umræðu og sýna málinu þann sóma, jafnvel þótt þeir vilji forsmá þingið, og sýna með því að þeir telji þetta mikilvægt mál.

Ég hefði gjarnan viljað hafa tíma til að ræða hér svolítið stöðu Íslands og hvaða mynd er að birtast af Íslandi í umheiminum þessa mánuðina.

Í fyrsta lagi kusu Íslendingar yfir sig aftur þá stjórnarflokka sem bera mesta pólitíska ábyrgð á hruninu sem hér varð. Það skilja menn ekki í útlöndum.

Í öðru lagi fór fljótlega að bera á því að það andaði köldu í garð útlendinga og sérstaklega erlendrar fjárfestingar. Viss andúð var í loftinu, ég tala nú ekki um gagnvart Evrópu, og ákveðinn blær einangrunarstefnu með léttu þjóðrembuívafi.

Í þriðja lagi er svo hent hingað inn tillögu um að slíta aðildarviðræðum við ESB. Menn spyrja margir og margir erlendir vinir mínir spyrja: Steingrímur, hvert er Ísland að fara?

Makríldeilan. Ég velti fyrir mér hvort hluti skýringanna á henni væri að mönnum fannst bara auðvelt að segja: Æ, leyfum bara Íslendingum að vera þarna úti í sínu horni, þeir hafa ekki mikinn áhuga á samstarfi við önnur lönd. Maður gæti spurt að þessu.

Hvaða áhrif mun þetta hafa á erlenda fjárfestingu og áhuga manna á því að vinna með okkar landi, á fjölþjóðleg fyrirtæki og hvernig þau kortleggja framtíð sína gagnvart starfsemi á Íslandi? Hvaða skilaboð eru þetta til ungs fólks sem vill með opnum huga skoða valkosti Íslands í þessu efnum?

Frú forseti. Það má segja að dropinn holi steininn. Það hefur þessi umræða gert. Þrátt fyrir allt hefur dropinn holað steininn frá því að ríkisstjórnarflokkarnir komu forhertir með þessa tillögu sína hingað inn (Gripið fram í: Er þetta …?) þangað til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra opnar á það að kannski sé nú rétt að skoða aðeins aðkomu þjóðarinnar. En hæstv. forsætisráðherra er ekki hér þannig að við getum spurt formann hins stjórnarflokksins: Eru komnar upp breyttar aðstæður í þessu máli? Nei, hæstv. forsætisráðherra hefur ekki tekið til máls. Hann hefur ekki sést hérna í umræðum um þetta mál. Er það svona léttvægt í hans huga eða liggur eitthvað annað að baki?

Auðvitað skiptir framhaldið mestu máli. Skotgrafaumræður okkar hér eru ekki aðalatriði þessa máls heldur framhaldið. Hvernig ætlum við sem land að halda á þessu og komast til lands með einhverja vitræna niðurstöðu í þessum efnum? Það er viðfangsefni Alþingis nú.

Stjórnarflokkarnir sjá greinilega að sér. Það má alveg hrósa þeim fyrir það. Þetta fráleita frumhlaup, sem það var að henda þessari tillögu svona inn í umræðuna, hefur augljóslega undið þannig upp á sig að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem talaði hér í kvöld er ekki sami maðurinn og hélt hópeflisfundinn í Valhöll þegar hann ætlaði að safna liðinu á bak við tillöguna og hina nýju vendingu í Evrópumálunum. Það var annar og auðmjúkari formaður Sjálfstæðisflokksins sem birtist okkur hér áðan.

Ég held að tillaga þingflokks Vinstri grænna sé í raun og veru kostaboð ef menn vildu skoða það nánar, kannski of rausnarlegt.

Ef það er þannig, og um það má auðvitað deila, að ekki séu aðstæður til þess að leiða viðræður til lykta og bera samning undir þjóðina, sem að mörgu leyti væri æskilegast úr því sem komið er, ef þær eru ekki til staðar, ef það er pólitískur veruleiki — hv. þm. Vigdís Hauksdóttir má flissa eins og hún vill úti í sal. Þetta er einfaldlega ég að tala hér, hv. þingmaður. Ég hef sannfæringu fyrir því sem ég segi og ég er ekkert viss um að það séu ómerkilegri sjónarmið en þau sem liggja að baki flissinu hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur — og ef það eru ekki (Forseti hringir.) pólitískar eða raunverulegar aðstæður til þess að fara þá leið að setja málið í dóm þjóðarinnar til að hún geti kosið um efnislegar niðurstöður úr viðræðum þá er hitt vænlegasti kosturinn, (Forseti hringir.) að loka engum dyrum og draga andann og leita svo til þjóðarinnar þegar menn eru búnir (Forseti hringir.) að jafna sig svolítið og telja það tímabært.